154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[15:38]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem sýnir að við erum samfélag sem ber hag námsmanna fyrir brjósti og vill bæta hag þeirra og tækifæri til framtíðar. Það er alltaf einstaklega ánægjulegt þegar hægt er og færi gefst á að staldra við, meta og endurmeta, skoða það sem betur má fara, hverju þarf að breyta, hvað reynslan sýnir. Markmiðið með Menntasjóði námsmanna er m.a. að efla stuðning við námsmenn, hvetja til betri námsframvindu og búa til réttlátara og nútímalegra námslánakerfi en var við lýði árið 2020 þegar sjóðurinn var settur á laggirnar, sem var sannarlega ekki vanþörf á því lánasjóðurinn gamli var löngu orðinn risaeðla sem hélt kynslóðum í heljargreipum út yfir gröf og dauða í sumum tilfellum.

Margt gott og jákvætt var innleitt með þessum nýja sjóði. Helstu nýjungar fólu í sér styrkjakerfi sem er bundið við námsframvindu og felur í sér umtalsverða niðurfellingu á höfuðstóli láns og styrkir vegna framfærslu barna. Lánin eru borguð út mánaðarlega þannig að námsmenn þurfa ekki að sinna námi í skugga óhagstæðs yfirdráttarláns og afborganirnar eru tekjutengdar, sem getur skipt sköpum fyrir ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum. Margt margt fleira mætti telja, hefur verið talið upp hér og mun eflaust verða talið upp hjá þeim sem á eftir mér koma í þennan ræðustól. Sumt er fyrirséð, annað síður.

Fyrir liggur að mun færri námsmenn hafa nýtt sér námsstyrkina en áætlanir gerðu ráð fyrir, auk þess sem stöðugt hefur dregið úr eftirspurn eftir námslánum. Þannig mætti við fyrstu sýn segja að sjóðurinn hafi ekki hjálpað nógu mörgum og kannski minnst þeim sem þurftu mest á að halda. Einstæðir foreldrar t.d. eiga erfitt með að nýta sér styrkina vegna krafna um línulega námsframvindu. Þá gefur styrkjakerfið heldur ekki tækifæri á að afla sér þverfaglegrar þekkingar.

Athygli vekur hversu margir nemendur kjósa frekar að vinna með skóla en taka námslán. Nám á að vera full vinna og öll eiga að geta verið í skóla án þess að vinna með. Þess vegna er þessi sjóður til. Sumir námsmenn vilja geti unnið með námi, burt séð frá öllum lánakerfum, og þá þurfum við að spyrja okkur hvernig við getum mætt þeim sem best sem þurfa á því að halda og tryggt þeim jöfn tækifæri til stuðnings. Væri hægt að skoða frítekjumörk, annars vegar í fríum og hins vegar þegar unnið er með námi þannig að námsfólki gefist þá kostur á að blanda saman lánum og vinnu? Eða skoða einhvers konar önnur kerfi?

Af fjölda lánþega að dæma virðast nemendur helst ekki vilja taka lán. Hér má auðvitað skoða hversu mörg úr hópi eldri námsmanna eru í rauninni í hlutanámi með fullri vinnu, sem skekkir sjálfsagt eitthvað þennan fjölda. Svo má líka minna á að íslensk ungmenni eru kannski brennd af reynslu fyrri kynslóða af þungri greiðslubyrði lána. Mögulega hefur stytting framhaldsskólans þau áhrif að háskólanemar, sem eru þá yngri þegar þeir hefja háskólanám, búa enn í heimahúsum en aðeins 10% nemenda undir 21 árs taka námslán. Fjórðungur Íslendinga á aldrinum 21–36 ára býr enn í foreldrahúsum og 13,6% námsmanna á sama aldri búa í foreldrahúsum. 27% nemenda segist ekki þurfa að taka námslán. Sjóðurinn verður alltaf að geta rétt hlut þeirra sem ekki komast í nám en það verður samt alltaf þannig að sum þurfa að taka námslán og önnur ekki.

Og enn eru námslánin of lág og það má alveg spyrja sig: Fyrst þetta eru námslán, af hverju þá að skera þau við nögl? Þar sem við erum hvort sem er alla ævi að borga þau, væri þá ráð að lána aðeins meira svo stúdentar geti framfleytt sér, t.d. með því að draga úr vinnu með námi, mögulega vera þá styttra í námi? Því hefur verið fleygt að námslánin séu hreinlega of lág til að það taki því að taka þau. Eitt markmið laganna var að fá fólk til að útskrifast fyrr en það virðist ekki vera að ganga eftir, einmitt vegna þess hversu fáir nemendur nýta sér þau og kjósa frekar að vinna. Færri eru að nýta sér styrkjakerfið en búist var við, eins og ég sagði áðan, og hvatakerfið sem bundið er við námsframvindu er til þess fallið að hampa þeim sem auðveldast eiga með að sinna námi, þurfa ekki að vinna með, geta hellt sér út í það, geta tekið sumareiningar o.s.frv. Námsmenn á Íslandi eru almennt með of óstöðuga og lága framfærslu miðað við lánin. Vaxtaumhverfið bítur þá eins og aðra og mikil atvinnuþátttaka sem hægir á framvindu dregur úr möguleika á styrkjum og þannig verður til vítahringur.

Þungt og flókið regluverk námslána kostar um 20% af öllum framlögum ríkisins til námsaðstoðar í gegnum Menntasjóð. Þar er mikilvægt að skoða og einfalda alla framkvæmd og mögulega er hægt að nýta það fé til að hækka námslánin eða jafna endurgreiðsluhlutfall.

Ein helsta gagnrýnin sem hér hefur komið fram er á endurgreiðslufyrirkomulagið. Það var ákveðið í lágvaxtaumhverfi og er lánþegum til að mynda gefinn kostur á að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. Nú eru gjörbreyttar aðstæður í efnahagsmálum sem hafa dregið fram annmarka á þessu. Mikil óvissa felst í því fyrir nemendur að vaxtastigið komi ekki í ljós fyrr en við útskrift og í því felst umtalsverð fjárhagsleg áhætta fyrir nemendur. Það er ekki jöfnunartæki að vaxtastig á tímabili lántöku á námsárum hafi úrslitaáhrif á lífsgæði til framtíðar, jafnvel áratugi fram í tímann.

Herra forseti. Það er mikil gjöf að fá tækifæri til að endurskoða svo mikilvægt jöfnunartæki í samfélagi, hinn mikilvægasta allra fjárfestingarbanka sem fjárfestir í framtíðinni, og við þurfum að skoða gaumgæfilega næstu skref. Ég myndi vilja leggja til betra og gjafmildara styrkjakerfi, sanngjarnt og viðráðanlegt endurgreiðsluhlutfall og svo má líka athuga hvort það er sjálfbært eða skynsamlegt að sjóður af þessum toga sé sjálfbær um fjármögnun og þurfi að reiða sig á endurgreiðslur og heimtur lána.

Nám er fjárfesting, ekki bara þeirra sem það stunda heldur þjóðfélagsins alls. Bókvitið, verkvitið, vitið, verður í askana látið. Það er gæfumerki á góðu samfélagi að hlúa vel að námsfólkinu sínu. Hinn þriggja ára gamli Menntasjóður hefur slitið fyrstu skónum og nú mun hann vonandi þróast áfram í átt til hagsældar fyrir land og lýð og í þá átt sem hæstv. ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar sagði áðan, með leyfi forseta: Á sem sanngjarnastan hátt fyrir flest.